Höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð
Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð hefur notið mikilla vinsælda hér á landi síðustu árin. Þetta er milt og öruggt meðferðarform sem byggir á ákveðnum handbrögðum og tækni. Greint er ójafnvægi í höfuðbeina- og spjaldhryggjar kerfinu og það leiðrétt. Unnið er með og losað um spennu, samgróninga og bólgur í öllu bandvefs- og himnukerfi líkamans. Meðferðin eykur orku og vökvaflæði líkamans og fer ennig inn á að losa um bældar tilfinningar sem tengjast spennu í vefjum hans (vefræn tilfinningalosun).
Saga og þróun
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð hefur þróast alla síðustu öld út frá vinnu og uppgötvunum þriggja lækna; A.T. Still, William Sutherland og dr. John E. Upledger.
A.T. Still (1873) var læknir (osteópati). Hann hneigðist að náttúrulækningum. Hann lagði mikla áherslu á að líkaminn er ein eining/heild, og að uppbygging hans og starfsemi eru nátengdar. Hann leit á líkamann sem kerfi með sjálflæknandi eiginleika, því minna sem við grípum inn í starfsemina þeim mun betur gengur að læknast. Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að lyf eru hættuleg. Í byrjun tuttugustu aldar stofnaði Still skóla í Osteophaty í Missouri í Bandaríkjunum.
Osteopatinn William Sutherland var nemandi A. T. Still. Hann er talinn vera upphafsmaður Cranial osteopathy (höfuðbeina liðfræði). Hann hafði mikinn áhuga á uppbyggingu höfuðkúpunnar. Hann lærði að uppbygging og starfsemi líkamans eru nátengdar og skoðaði uppbyggingu samskeyta (sauma) höfuðbeinanna. Hver saumur hefur sína sér eiginleika í uppbyggingunni og Sutherland sýndi fram á þýðingu þess fyrir starfsemi höfuðkúpunnar/hreyfingu. Hann uppgötvaði að höfuðbeinin eru ekki aðeins hreyfanleg, heldur að þau hreyfast taktfast í útþenslu og samdrátt, hjá eðlilegum einstaklingi. Hann kom fram með kenningar um að hægt væri að hreyfa höfuðbeinin og hafa þannig áhrif á starfsemi heilans og heilatauganna. Sutherland taldi að með því að leiðrétta afstöðu beinanna þá lagaðist starfsemi líkamans.
Dr. John E.Upledger fékk áhuga á Cranial Osteopathy eftir að hafa rekist á kröftugan slátt í mænuvökvanum þegar hann aðstoðaði við skurðaðgerð þar sem fjarlægð var kölkun við mænuhimnur í hálsi. Hann nam fræði Sutherlands og eftir mikla rannsóknarvinnu við Michican State University þróaði hann CranioSacral meðferðina sem ólíkt Cranial osteopathy gengur út frá því að beinin þjóni og fylgi bandvefnum en ekki öfugt. Niðurstaða Dr. Upledger var sú að árangursrík meðferðarvinna yrði að taka til allra þátta mannsins, jafnt líkamlega sem andlegra þátta. Maðurinn er ein heild og það ber að meðhöndla hann sem slíkan.
Höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfið er lífeðlisfræðilegt kerfi, sem er tiltölulega nýlega uppgötvað. Það samanstendur af heila- og mænuhimnum og heila- og mænuvökva sem umlykur, nærir og ver miðtaugakerfið. Það nær frá höfuðbeinum niður í spjaldhrygg.Höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfið er hálflokað vökvakerfi. Vegna frásogs og framleiðslu á heila- og mænuvökva þá myndast taktföst hreyfing á vökvanum. Þessi taktfasta hreyfing veldur hreyfingu á heila- og mænuhimnum. Sú hreyfing kvíslast eftir himnukerfi líkamans sem er ein samhangandi heild. Þá hreyfingu er hægt að greina með snertingu hvar sem er á líkamanum. Þessi taktfasti sláttur í heila-og mænuvökvanum er u.þ.b. 6-12 slög á mínútu.
Höfuðkúpan er samsett úr mörgum beinum sem eru aðskilin við fæðingu. Þau vaxa og ná saman og mynda beinsaum sín á milli. Hin hefðbundna skýring er sú að við sjö ára aldur eru beinin orðin samsoðin heild. En í þessari meðferð er gengið út frá því að beinsaumurinn sé í raun bandvefsliðamót er bjóði upp á hreyfingu beinanna. Þetta er ekki mikil hreyfing en höfuðkúpan þenst út og dregst saman við hreyfingu heila- og mænuvökvans. Ef hins vegar einhverjar hindranir verða á hreyfingu höfuðbeinanna eða einhverstaðar í himnukerfi líkamans hindrar það flæði þessarar taktföstu hreyfingar eftir himnukerfinu. Hægt er að meta hvar hindranir liggja með því að greina taktinn á nokkrum stöðum á líkamanum.
Bandvefur
Bandvefskerfi líkamans er það kerfi sem tengir saman alla hluta hans í eina heild. Það má líta á bandvefinn sem eitt samhangandi slíður sem nær frá hvirfli til ilja. Bandvefurinn myndar himnur í heila, slíður um heila, mænu og taugar og hvíslast um æðar, vöðva, bein, líffæri og önnur byggingakerfi líkamans, þar með talið frumur og frumulíffæri. Bandvefur er uppbyggður af bæði trefjaefni (kollageni) og teygjuefni (elastíni), það gerir honum kleift að vera bæði teygjanlegur og að dragast saman aftur. Þessir eiginleikar bandvefs valda því að hann aðlagast hinum ýmsu breytingum sem eiga sér stað í líkamanum, bæði eðlilegum vexti og óeðlilegum, t.d. bólgur, æxli og skekkjur. En slíkar breytingar og skekkjur eru samt sem áður álag á bandvefinn sem er í stöðugri viðleitni til að fara í rétt horf. Teygjuþáttur bandvefsins geymir í sér “minni” um eðlilega stöðu. Höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð styður við líkamann í að vinda ofan af bandvefnum, og þar sem teygjuþáttur himnukerfisins “man” réttu leiðina, er mikilvægt að meðferðaraðili láti af þörf sinni til að gera e-ð eða að stjórna og hlusti á líkama þiggjanda meðferðarinnar því hann veit best hvað þarf að gera.
Vefræn tilfinningalosun (SomatoEmotional Release®)
Vefræn tilfinningalosun (VTL) er sál-líkamleg aðferð sem notuð er til að aðstoða líkamann við að losa um vefrænar afleiðingar af áföllum og neikvæðar tilfinningar sem þeim tengjast. Hún byggir á höfuðbeina- og spjaldhryggjar vinnunni en einnig er beitt samtalstækni. Þetta meðferðarform hófst í lok áttunda áratugarins þegar Dr. John Upledger og lífeðlisfræðingurinn Dr. Zvi Karni PhD, rákust á að oft gerist það að líkaminn geymir í sér orku sem er afleiðing af slysum, meiðslum eða tilfinningalegs áfalls. Áfallið gerir það að verkum að líkaminn geymir orkuna á einhverjum stað í líkamanum og myndar það sem Dr. Upledger kallar orkumein (energy cyst). Heilbrigður líkami getur tekið inn og aðlagast slíkum orkumeinum, en þau valda því að meiri orka fer í alla starfsemina. Eftir því sem árin líða þá minnkar aðlögunargetan og fram koma einkenni sem sífellt er erfiðara að horfa framhjá eða halda niðri.
Meðferðin
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fer fram með þeim hætti að í flestum tilvikum liggur sá er þiggur meðferðina á bekk og er fullklæddur. Meðferðaraðilinn byrjar á að greina hreyfinguna í mænuvökvanum með því að þreifa eftir henni á nokkrum stöðum á líkamanum, og finnur þannig út hvar liggur spenna sem hindrar hreyfinguna. Meðferðin er síðan fólgin í að losa um spennu í bandvefnum og liðka til fyrir hreyfingu höfuðbeina og spjaldhryggs og þar með losa um spennu í þessu himnukerfi miðtaugakerfisins og leiðrétta skekkjur á beinum. Gegnumgangandi er markmiðið að nota mjög léttan þrýsting, innan við 5 gr. Líkami þiggjandans er alltaf sá sem ræður ferðinni, bæði hvað magn þrýstings og stefnu varðar. Ef beitt er auknum þrýstingi þá bregst líkami þiggjandans við með því að veita mótstöðu gegn innrásinni. Með léttri snertingu erum við að læðast framhjá varnarkerfi líkamans og líkaminn nær að nýta sér þennan létta þrýsting og orku til að losa um spennu eða stíflur. Þessi milda nálgun og að líkami þiggjandans ræður alltaf ferðinni, tryggir að þetta er mjög öruggt og hættulaust meðferðarform.Algengt er að þessi meðferð taki um klukkustund í senn en það er mjög misjafnt eftir einstaklingum hve oft þarf að koma. Langflestir finna fyrir verulega bættri líðan í fyrstu 1-3 skiptunum. Mjög margir hafa gert þessa meðferð að reglubundnum þætti í sinni heilsueflingu.
Meðferðargildið
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er mjög mild meðferð sem þrátt fyrir lítið inngrip hefur mjög djúp áhrif. Styrkur þessa meðferðarforms er m.a. að hluti meðferðarinnar felst í að vinna frá kjarnanum (mænu) og út á við. Þessi meðferð vinnur með líkamanum í að auka eigin getu til að efla starfsemi miðtaugakerfis-ins, minnkar neikvæðar afleiðingar streitu, eflir almennt heilsufar og eykur viðnám gegn sjúkdómum.
Höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð hefur m.a. reynst vel við eftirfarandi einkennum:
-Mígreni
-Íþróttameiðslum
-Krónískum háls- og bakverkjum
-Heila og mænusköðum
-Örðugleikum í stjórnun hreyfinga
-Streitu og streitutengdum vandamálum
-Kjálka og bitvandamálum
-Hryggskekkju
-Síþreytu
-Taugavandamálum
-Námsörðugleikum
-Ofvirkni
-Vefjagigt
-Áfallsröskun
-Vandamálum í ónæmiskerfinu
-Vefjavandamálum eftir skurðaðgerðir
-Vanlíðan ungbarna
Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð hefur fengið mikinn meðbyr, góðar móttökur hjá almenningi og viðurkenningu. Byggist það á þeim góða árangri sem næst með þessu meðferðarformi.
Hvernig nýtist Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð íþróttafólki?
Þetta meðferðarform er frábær aðferð til að fyrirbyggja meiðsli og einnig ein besta aðferð til að hvetja og styðja við sjálfsheilunarferli líkamans. Mjög jákvætt er að fara reglulega í þessa meðferð til að hjálpa líkamanum að losa um spennu og vandamál sem safnast upp í daglega lífinu og ekki síst við erfiða íþróttaiðkun. Meðferðin kemur í veg fyrir að spenna safnist upp og minnkar þannig líkur á meiðslum, einnig eru ákveðnir þættir í meðferðinni sem lækka spennu í ósjálfráða taugakerfinu (sympatíska kerfinu) sem ekki bara eykur líkamlega slökun heldur slakar einnig á andlegri spennu og kvíða t.d. fyrir keppni eða próf. Við meiðsli er algengt að um skaða á himnukerfi líkamans sé að ræða. T.d. tognanir, snúningar, bólgur, rof eða blæðingar í hinum ýmsu himnum líkamans, s.s. vöðvahimnum, sinum, liðböndum, liðpokum o.s.frv. Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð gengur út á að vinna með skaða í himnukerfi líkamans. Himnan er uppbyggð m.a. af trefjum og teygjuefni. Teygjuþátturinn (elastín) í himnunni gerir það að verkum að himnan leifir ákveðið tog og trefjarnar (collagen) gefa henni styrk þannig að himnan skaðast ekki þrátt fyrir t.d. eðlilegan vöxt eða jafnvel óeðlilgan (bólgur og æxli). En eins og íþróttamenn vita þá er oft um álag og ofnotkun að ræða sem gerir það að verkum að himnan gefur sig. Með ákveðnum handbrögðum þá gengur þetta meðferðarform út á að hjálpa himnunni að vinda ofan af snúningi og tognunum, minnka bólgur og losa um afleiðingar af höggi ef um slíkt er að ræða. Auk þess býr þetta meðferðarform yfir þeim kosti að geta losað um gömul meiðsl. Oft valda gömul meiðsl, (samgróningar, spenna, langvinnar bólgur eða önnur vandamál) afleiddum vandamálum annars staðar í líkama, þó gamla vandamálið sé án einkenna getur það þannig verið að valda óskýrðum verkjum, stirðleika eða vanstarfsemi annars staðar í líkamanum. Þetta er vegna þess að himnukerfi líkamans er ein heild frá hvirfli til ilja, og frá frumu til húðar. Þannig að þegar spenna myndast á einum stað þá myndast frá henni tog sem getur verið að valda afleiddu einkennunum. Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð býr yfir greiningaraðferðum sem gera meðferðaraðilanum kleift að finna rót vandans. Þannig er ekki aðeins einnkennið meðhöndlað heldur er orsökin leituð uppi og meðhöndluð.Með því að fara reglulega í höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð er þannig hægt að koma í veg fyrir að gamlir skaðar taki sig upp, losa um gamla skaða sem hugsanlega eru að valda einhverjum vandamálum, losa um kvíða og andlega spennu og auka liðleika himnukerfisins sem lágmarkar hættu á sköðum.
Dr. John E. Upledger stofnaði Upledger Institute (UI) í Bandaríkjunum árið 1985. Hlutverk UI er að stunda rannsóknir, bjóða upp á meðferðir sérfræðinga og kenna höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og önnur meðferðarform sem tengjast henni. Höfuðstöðvar UI eru í borginni West Palm Beach í Flórida í Bandaríkjunum. Nám í Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjar meðferð fer fram hér á landi og einnig eru reglulega kynningarnámskeið víða um land.
Erla Ólafsdóttir sjúkraþjálfari